Ég byrjaði seint á ævinni að fást við myndlist og er stöðugt að læra. Ég féll algjörlega fyrir vatnslitamálun sem krefst mikillar þekkingar á aðferðum og efnisnotkun. Það sem heillar mig mest við vatnslitina er hvernig pappírinn og litirnir vinna saman. Birtu fær maður í myndirnar með því að láta hvíta pappírinn skína í gegn og maður getur stjórnað því hvernig litirnir flæða með því að hafa hæfilegt hlutfall á milli vatns og lita. Að blanda liti er mikil kúnst, hægt er að kalla fram ýmis litabrigði með því að nota ólíka grunnliti í litablöndunina. Það skiptir miklu máli hvort maður málar bjarta vetrarmynd þar sem allt er hvítt af snjó eða haustmynd að kvöldlagi með djúpum skuggum og haustlitum.
Ég hef prófað að mála allt mögulegt en hef mesta unun af því að mála náttúruna sem er síbreytileg eftir árstíðum. Á sumrin reyni ég að mála sem mest úti við og lýk síðan við myndirnar inni. Þetta er ekki auðvelt á Íslandi því ekki má rigna og ef það er hvasst er erfitt að hemja pappírinn á statívinu. Uppáhaldsbirtan er snemma morguns og síðdegis því þá koma skuggar vel fram.
Yfirleitt vinn ég myndirnar nokkuð mikið, byrja á að skissa litla mynd með blýanti í skissublokk til að átta mig á hlutföllum, fjarlægð, hvað er dekkst og hvað ljósast og hvaða liti ég ætla að nota. Oftast dreg ég léttar meginlínur með blýanti á vatnslitapappírinn. Síðan er pappírinn bleyttur og látinn þorna nokkra stund áður en hafist er handa. Grunnurinn er oft unninn með því að láta litina flæða nokkuð frjálst um pappírinn Svo er hann látinn þorna nokkuð og síðan unnið áfram með smáatriði og skugga með því að mála lag ofan á lag. Ef eitthvað misferst er oft hægt að laga það með því að þvo upp úr mistökunum eða mála yfir eða í kring með þéttari lit. Stundum málar maður mynd í einni bunu en aðrar myndir leggur maður frá sér og vinnur síðar áfram þar til maður er nokkuð sáttur við útkomuna. Stundum er erfitt að hafa vit á því að stoppa á réttum tíma.
Að mála mynd veitir svipaða tilfinningu og að spila á hljóðfæri eða syngja í kór, maður einbeitir sér algjörlega að verkinu, gleymir sér og endurnærist á einstakan hátt.
Marta Ólafsdóttir
Fædd 1950 , líffræðingur og fv.framhaldsskólakennari.
Myndlistarnám
Myndlistaskólinn í Reykjavík
- Teiknun 1 , 2003
- Módelteiknun, (2005) kennari Þorri Hringsson
Myndlistarskólinn í Kópavogi
- Teiknun framhald 2004, kennari Guðrún Sigurðardóttir
- Módelteiknun 2004 og 2015, Kennari Ingiberg Magnússon
- Vatnslitun 1 2005, kennari Margrét Friðbergsdóttir
- Vatnslitun 1 og 2 2006, kennari Erla Sigurðardóttir
- Frjáls vatnslitamálun 2007, kennari Bjarni Sigurbjörnsson
- Vatnslitamálun 2008 og 2009 kennari, Derek Mundell
- Vatnslitamálun framhald 2010 kennari, Derek mundell
- Frjáls vatnslitamálun 2013 og 2014 ,Derek Mundell.
Ýmis námskeið
- Vatnslitamálun framhald 2011 kennari Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Sumarnámskeið í teiknun og pastellitun kennari Ingiberg Magnússon
- Sumarnámskeið útimálun (vatnslitir) Erla Sigurðardóttir
- Sumarnámskeið hjá Bridged Woods (útimálun) í Reykjavík (2008), Frakklandi(2010), Borgarfirði (2012) og Skálholti (2015)